Blóðugur niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja – lokanir deilda og miklar uppsagnir
Um 25% skerðing verður á fjárframlagi til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á næsta ári samkvæmt nýjum fjárlögum sem verða til umfjöllunar á Alþingi næstu daga og eru lögð fram í dag. Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS segir þetta gríðarlegt áfall því undanfarin ár hafi verið unnið mikið starf í hagræðingu innan stofnunarinnar vegna skertra framlaga. Framundan blasi því við lokun deilda og uppsagnir fjölda starfsmanna.
Það er óhætt að segja að þetta sé blóðugur niðurskurður því framlag til HSS lækkar um 400 milljónir króna en það var 1700 m.kr. fyrir árið 2010. Afleiðingarnar verða gríðarlega alvarlegar. Um 60 stöðugildi tapast og fyrir liggur að loka deildum á sjúkrahúsinu.
Sigríður sagði við Víkurfréttir nú rétt fyrir starfsmannafund, sem hún boðaði til á stofnuninni þar sem þessi tíðindi yrðu kynnt, að þessi niðurskurður kæmi sér mjög illa við sjúklinga og aðstandendur þeirra og ljóst væri að þjónusta HSS yrði stórlega skert til viðbótar við það sem þegar hefur verið gert. Þá væri það líka mjög alvarlegt að þurfa horfa upp á það að segja upp 60 til 100 manns og það væri ekki á bætandi á svæði þar sem atvinnuleysi væri mest á landinu.