Blóðug slóð um innbrotsvettvang
Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um innbrot í gömlu keiluhöllina að Ásbrú í gærmorgun. Þar hafði verið farið inn með því að kasta grjóti í glugga og brjóta hann. Hinn óboðni gestur hafði augsýnilega skorið sig þegar, hann fór inn, því blóðdropaslóð lá um allt hús.
Þegar inn var komið braut hann gat á gipsvegg sem lá inn á gang milli Keiluhallarinnar og sjoppu. Þaðan braut hann sér leið inn í sjoppuna með því að brjóta gler með barefli. Blóðslóðin lá að afgreiðsluborði hennar en þá virðist viðvörunarkerfi, sem fór í gang, hafa stuggað við innbrotsþjófnum, því einskis var saknað. Hann fór sömu leið til baka og braut aðra rúðu í keiluhöllinni til að komast út.
Lögreglan rannsakar málið.