Blendnar tilfinningar við andlát Spkef
Rúmlega aldarsögu Sparisjóðsins í Keflavík lauk endanlega, reyndar með kennitölu númer tvö, síðasta mánudag. Hvað sem Landsbankinn mun gera er ljóst að það verður erfitt fyrir hann að fylla skarð SpKef sem alla tíð var ótrúlega náinn íbúum á Suðurnesjum. Víkurfréttir hafa fengið tölvupósta frá íbúum sem spyrja hvort ekki sé hægt að stofna nýjan sparisjóð. Fyrrverandi starfsmenn SpKef hafa miklar áhyggjur af framtíð sinni. Einn þeirra sagði við leiðarahöfund að þeim liði illa þar sem bankastjóri Landsbankans hefur gefið það út að það sé ekki útilokað að einhverjum verði sagt upp.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig viðskiptavinir SpKef bregðast við þessum breytingum. SpKef var með yfir 50% markaðshlutdeild á Suðurnesjum og náði henni m.a. með því að taka þátt í samfélaginu hér með því að styrkja myndarlega alla tíð íþróttir, menningu og atvinnulífið. Það er því ekki ólíklegt að einhverjir fyrrverandi viðskiptavinir SpKef hugsi sér til hreyfings eftir yfirtökuna því margir eru ósáttir. Í Víkurfréttum í dag eru auglýsingar frá þremur öðrum bankastofnunum auk Landsbankans sem allir vilja fá viðskipti þúsundir Suðurnesjamanna. Fyrir þremur árum síðan voru fjórar bankastofnanir á Suðurnesjum en nú eru aðeins tvær. Ef við skoðum stöðuna hálfa öld til baka hafa alla tíð verið fjórar bankastofnanir á svæðinu. Það er því ekki hægt að útiloka að hér opni þriðja bankastofnunin innan tíðar.
Mörgum finnst ríkisvaldið hafa brugðist Suðurnesjum með þessari yfirtöku Landsbankans. Allir stóru bankarnir á landinu hafa fengið ríkisaðstoð til að endurreisa sig á einhvern hátt en það var of dýrt að hjálpa Suðurnesjamönnum. Fjármálaráðherra þurfti að éta það loforð ofan í sig að SpKef yrði endurreistur. Hann segir líka í viðtali við VF að Suðurnesin geti alveg bjargað sér án álvers. Félagar hans í VG hafa líka sagt að það sé ekki hægt að starfrækja einkasjúkrahús og fleiri atvinnutækifæri. Alls ekkert svona einka eitthvað. Það er svo vont. Ferðaþjónustan á að bjarga okkur og Eldfjallagarður.
Þúsundir á Nettómóti
Nettómótið í körfubolta er skemmtilegt dæmi um góða samvinnu körfuboltafélaganna í Keflavík og Njarðvík sem héldu auðvitað sínu sjálfstæði þrátt fyrir sameiningu bæjarfélaganna. Fyrir um áratug var mótið fyrst haldið (hét fyrst Samkaupsmótið) en það er fyrir 12 ára og yngri. Nú um síðustu helgi kepptu 185 keppnislið frá 24 félögum. „Ég held að það séu ekki nærri nógu margir sem geri sér grein fyrir því hér á Suðurnesjum, hvað þetta mót er stórt og hvað framkvæmdin er gríðarlega góð. Þetta er toppurinn á Íslandi í mótum fyrir krakkana,“ sagði formaður Körfuknattleikssambands Íslands við VF. Um þrettán hundruð keppendur og með foreldrum og forráðamönnum voru hér vel á þriðja þúsund gestir í Reykjanesbæ mótshelgina. Þetta var frábær hugmynd á sínum tíma sem nú er stærsta fjáröflun körfuboltadeilda Keflavíkur og Njarðvíkur. Hér sameinast góðir kraftar bæjarbúa og margir njóta góðs af. Góðar hugmyndir eru nauðsynlegar til að góðir hlutir gerist.