Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Blendnar tilfinningar vegna framboðs Oddnýjar
Miðvikudagur 11. mars 2009 kl. 16:01

Blendnar tilfinningar vegna framboðs Oddnýjar


„Það er ekki hægt að segja annað en að þetta veki blendnar tilfinningar hjá okkur í meirihlutanum,“ segir Laufey Erlendsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garði innt eftir viðbrögðum meirihlutans vegna þeirra tíðinda að Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri sé á leið í þingmennsku.

„Bæjarstjórastarfið er auðvitað mjög krefjandi starf og það er þingmennskan líka þannig að þetta er mál sem við þurfum að skoða mjög vel. Við munum fara yfir þetta í vikunni en það er ekki komin niðurstaða í málið ennþá,“ svaraði Laufey aðspurð hvort meirhlutinn væri farinn að svipast um eftir öðrum bæjarstjóra eða huga að því að auglýsa stöðuna.

Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að F-listinn í minnihlutanum vilji að Oddný hætti sem bæjarstjóri. Haft er eftir Ingimundi F. Guðnasyni, oddvita listans, að bæjarstjórastaðan sé það mikilvæg að ekki sé hægt að standa í kosningabaráttu samhliða starfinu.  Oddný segir Garðbúa ekki þurfa að hafa áhyggjur að því að hún sinni ekki starfinu á meðan hún gegni því.

„Að stýra bæ eins og Garðinum við þær aðstæður sem tekist hefur að skapa þar er sjálfsagt þægilegra verkefni en þau verkefni sem alþingismenn þurfa að glíma við í slæmri stöðu þjóðarbússins…Ef reynsla mín og lífsýn getur nýst við að greiða úr vandanum og skapa góða framtíð Íslands er engin leið fyrir mig að skorast undan því að leggjast á árarnar,“ segir Oddný meðal annars í VF á morgun innt eftir því hvort bæjarstjórastarfið í vel stæðu sveitarfélagi sé ekki áhugaverðana en þingmannsstarf í rústum efnahagshrunsins.
---

VFmynd - Oddný Harðardóttir tók við bæjarstjórastöðunni vorið 2006 eftir sögulegar kosningar í Garði. Nær öruggt má telja að hún sé á leið á þing.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024