Blendnar tilfinningar á síðasta bæjarstjórnarfundinum
Blendnar tilfinningar bærðust með sumum bæjarfulltrúunum sem í gær sátu síðasta bæjarstjórnarfundinn í Reykjanesbæ á þessu kjörtímabili. Af þeim ellefu bæjarfulltrúum sem sátu kjörtímabilið hættu sjö störfum á þessum vettvangi. Þeirra á meðal Björk Guðjónsdóttir sem setið hefur í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í tuttugu ár. Það verða því miklar mannabreytingar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok þessa mánaðar.
VF tók stutt viðtöl við þá bæjarfulltrúa sem hættu eftir fundinn í gær og munum við birta þau hér á vefnum.
Lokaspretturinn í kosningbaráttunni er nú framundan og í Víkurfréttum á morgun munum við birta viðtöl við alla oddvita flokkanna sem bjóða fram í Garði, Sandgerði, Grindavík og Vogum. Flestir eru þeir sammála um að ná þurfi tökum á fjármálum sveitarfélaganna. Þeir eru einnig sammála um að aðdragandi þessara kosninga sé öðruvísi en oft áður, baráttan hafi farið rólega af stað og sé lágstemmdari í takt við tíðarandann í þjóðfélaginu.
VFmynd/elg – Björk Guðjónsdóttir í ræðupúlti í gær í síðasta skipti á bæjarstjórnarfundi.