Blái herinn og bandaríski flugherinn hreinsuðu 3 tonn af rusli
Blái herinn mætti til Grindavíkur síðastliðinn laugardag og hreinsaði rusl úr fjörunum við gamla fiskeldið í Mölvík. Með í för voru sjálfboðaliðar úr bandaríska flughernum sem dvelja á landinu um þessar mundir og sinna loftrýmisgæslu NATO. Greint er frá þessu á vef Grindavíkurbæjar.
Þrátt fyrir góðar undirtektir Grindvíkinga þegar auglýst var eftir sjálfboðaliðum sá enginn Grindvíkingur sér fært að mæta þegar á hólminn var komið. Þeir koma samt örugglega næst.
Hermennirnir gengu vasklega til verks og stútfylltu báðar kerrur af rusli. Tómas Knútsson áætlaði að alls hafi hópurinn borið þrjú tonn af rusli frá ströndinni og í kerrurnar.