Blái herinn hreinsar upp olíuþang úr Gerðakotstjörn
Tómas Knútsson og félagar hans í umhverfissamtökunum Bláa hernum munu um helgina þrífa Gerðakotstjörn á Hvalsnesi en olía úr flutningaskipinu Wilson Muuga barst inn í tjörnina og er nú föst í þangi í tjörninni. Olíublautu þanginu verður mokað upp í fiskikör sem komið hefur verið fyrir á svæðinu.
Í kjölfar þess að hundruðir olíublautra fugla sáust við Reykjanes um sl. helgi var farið að kanna hvaðan olían gæti komið. Fljótlega grunaði menn að olían kæmi frá Wilson Muuga, sem staðið hefur á strandstað í Hvalsnesfjöru frá 19. desember á sl. ári. Starfsmenn Náttúrustofu Reykjaness urðu síðan varir við olíublautan þara í sjávartjörn við strandstaðinn og fundu einnig æðarfugl sem hafði drepist í olíumenguninni.
Tómas ætlar að hreinsa tjörnina um helgina og hefur fengið til liðs við sig félaga í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði.
Mynd: Olíuflekkur í tjörninni við strandstað Wilson Muuga. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson