Bláfáninn dreginn að húni í Bláa Lóninu í 13. sinn
Alþjóðlega umhverfisviðurkenningin Bláfáninn dreginn að húni í Bláa Lóninu í 13. sinn. Bláa Lónið hefur flaggað Bláfánanum árlega frá árinu 2002. Bláfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem veitt er til að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda.
Salome Hallfreðsdóttir, verkefnisstjóri Bláafánans hjá Landvernd, afhenti Bláfánann fyrir hönd Landverndar. Í máli hennar kom m.a. fram að Bláa Lónið er einn tveggja staða á Íslandi sem flaggar Bláfánanum árið um kring.
Meginmarkmið Bláfánaverkefnisins er bætt umhverfisstjórnun, góð hreinlætisaðstaða, gæði vatns, gott aðgengi að upplýsingum um þjónustu á viðkomandi svæði og slysavarnir. Mikilvægur liður í Bláfánaverkefninu er að efla almenna umhverfisvitund og er það gert með lifandi fræðslu og upplýsingum um náttúru og viðkvæm svæði á Bláfánastöðum.