Blaðamenn stefna ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til að stunda störf sín í Grindavík
Blaðamannafélag Íslands óskaði í dag eftir flýtimeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna máls sem félagið höfðar á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á rétti blaðamanna til þess að stunda störf sín í Grindavík þrátt fyrir ákvörðun um brottflutning af svæðinu. Félagið krefst þess að viðurkennt verði með dómi að blaðamönnum sé það heimilt án sérstaks leyfis lögreglustjórans á Suðurnesjum, fari þeir að þeim almennu fyrirmælum sem í gildi eru á hverjum tíma um umferð um bæinn og lokun einstakra svæða og öðrum lögmætum fyrirmælum lögreglu.
Frá 16. janúar hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum nær alfarið bannað blaðamönnum að stunda sín störf í Grindavík þó svo að umfangsmiklar aðgerðir hafi farið þar fram á vegum stjórnvalda auk þess sem íbúum var heimilað að vitja eigna sinna. Að kvöldi 4. febrúar sl. fengu fjömiðlar tilkynningu frá lögreglustjóranum um að morguninn eftir yrði stefnt að því að fara með fjölmiðla til Grindavíkur í fylgd viðbragðsaðila. Þar kom fram að fjölmiðlar hafi verið útilokaðir frá svæðinu "af tilliti til íbúa Grindavíkur og vegna umfangs aðgerða viðbragðsaðila".