Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bláa lóninu lokað í tvær vikur í janúar
Mánudagur 21. desember 2015 kl. 11:56

Bláa lóninu lokað í tvær vikur í janúar

Bláa lónið verður lokað vegna stækkunar og endurbóta í hálfan mánuð frá 5. til 22. janúar nk. Það er í fyrsta sinn síðan Bláa lónið var opnað á núverandi stað árið 1999 sem lónið er tæmt og baðstaðnum lokað.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir í Morgunblaðinu um helgina að grunnflötur baðlónsins muni stækka úr 5.000 í 7.000 fermetra við þessar endurbætur. Allar göngubrýr verði endurnýjaðar og komið fyrir bættri aðstöðu fyrir veitingar, í stað þeirrar gömlu. Þá verður sett upp önnur aðstaða við lónið þar sem Blue Lagoon-húðvörur verða kynntar.

„Við erum einnig að bæta aðstöðu fyrir spa og nuddmeðferðir í lóninu. Um leið erum við að tengja núverandi upplifunarsvæði við nýja upplifunarsvæðið sem mun ganga inn í hraunið og tengja núverandi upplifunarsvæði við nýja hótelið,“ segir Grímur í Morgunblaðinu. Kostnaður vegna framkvæmdanna er 400 milljónir. Framkvæmdin er hluti af stækkun vegna uppbyggingar lúxushótels sem mun verða opnað árið 2017.

Grímur segir verkefnið spennandi en um leið krefjandi, enda þurfi að hafa baðstaðinn lokaðan í tvær vikur. Hann segir endurbætur á baðlóninu munu styrkja upplifun gesta.

Í frétt Morgunblaðsins segir að tækifærið verði einnig notað til að sinna viðhaldi innanhúss. Búningsskápum verður ekki fjölgað í þessari lotu. Það mun gerast þegar Betri stofan í lóninu flyst frá núverandi stað og á lúxushótelið, þá koma hefðbundnir skápar í staðinn fyrir núverandi Betri stofu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024