Bláa Lónið verðlaunar starfsfólkið
Starfsfólk Bláa Lónsins hf fær sérstaka eingreiðslu vegna góðs árangurs á sl. ári.
Bláa Lónið mun greiða fastráðnu starfsfólki sem starfaði hjá fyrirtækinu í a.m.k. 6 mánuði á sl. ári sérstaka launaeingreiðslu að upphæð 150.000 miðað við fullt starf.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, segir að þessi árangurstengda greiðsla sé viðurkenning til starfsfólks vegna frábærrar frammistöðu árið 2012. „Sterk liðsheild og vinnusemi ásamt metnaðarfullri fjárfestingu og stefnu félagsins endurspeglast í góðri stöðu félagsins,“ segir Grímur.
Bláa Lónið er eitt af 25 undrum veraldar samkvæmt hinu virta tímariti National Geographic. Hjá fyrirtækinu starfa 250 starfsmenn á ársgrundvelli og fjölgar þeim í 320 nú í sumar. Á undanförnum þremur árum hefur starfsfólki Bláa Lónsins fjölgað um þriðjung og er það mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum.
Frá villibráðarkvöldi í Lava veitingastað Bláa lónsins.