Bláa Lónið verðlaunað fyrir hönnun
Bláa Lónið hlaut viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2017, en viðurkenningin er veitt því fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni.
Viðurkenningin er nú veitt í fjórða sinn en Bláa Lónið hefur frá upphafi leitað samstarfs við hönnuði á öllum sviðum uppbyggingar.
Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum en sjálf „Hönnunarverðlaun Íslands“ hlaut Marshall-húsið.
Í umsögn dómnefndar kom fram að hönnun væri órjúfanlegur hluti af heildarmynd Bláa Lónsins, sem vinnur náið með framúrskarandi arkitektum og hönnuðum þvert á greinar. „Þessi framsýni á svo sannarlega þátt í því að fyrirtækið hefur notið þeirrar velgengni sem raun ber vitni og átt sinn þátt í vinsældum Íslands sem áfangastaðar. Bláa Lónið er eitt besta dæmið á Íslandi um það að fjárfesting í góðri hönnun margborgar sig.“