Bláa lónið segir upp 403 starfsmönnum
Bláa Lónið hefur gripið til aðgerða til að bregðast við miklum samdrætti og óvissu í ferðaþjónustu næstu misseri. Nú er orðið ljóst að áhrifin af Covid-19 eru miklu umfangsmeiri og langvinnari en væntingar voru um. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Alls verður 403 starfsmönnum sagt upp störfum frá og með næstu mánaðamótum, en Bláa Lónið vonast til að geta ráðið það starfsfólk sem sagt verður upp aftur til starfa þegar ytri aðstæður breytast til hins betra. Laun þeirra starfsmanna sem ekki fá uppsögn verða skert, mest hjá forstjóra og stjórn um 30%, 25% hjá framkvæmdastjórn og minna hjá öðrum.
Þrátt fyrir mikla óvissu hefur verið ákveðið að opna allar starfsstöðvar Bláa Lónsins á ný þann 19. júní næstkomandi, eftir tæplega þriggja mánaða lokun en á því tímabili hefur fyrirtækið verið nær tekjulaust.
„Markmið þeirra aðgerða sem Bláa Lónið hefur nú gripið til er að gera fyrirtækinu kleift að komast í gegnum þá óvissutíma sem framundan eru. Bláa Lónið, sem leiðandi fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu, ætlar sér að taka þátt í viðspyrnu greinarinnar af fullum krafti þegar birta tekur að nýju,“ segir í tilkynningunni.