Bláa lónið opnar en ganga að eldgosinu er bönnuð
Það er óbreytt mat lögreglustjóra að ógn geti stafað af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður. Hætta er talin á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði en áfram er hætta vegna gasmengunar. Það er ákvörðun Bláa Lónsins að hefja starfsemi að nýju að höfðu samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum á morgun laugardag, kl. 12. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra.
Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla. Þá er veðurstöð staðsett á einni byggingu Bláa Lónsins. Eftirlit og viðbagð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins.
Öryggisfulltrúi á vegum fyrirtækisins mun sitja morgunfundi aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar daglega. Lögreglustjóri fór þess jafnframt á leit við forsvarsmenn Bláa Lónsins að þeir kynntu mótvægisaðgerðir fyrir Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Vinnueftirlitinu og sóttvarnalækni. Þá er og hefur verið lögð rík áhersla á gott samstarf við Veðurstofu Íslands.
Gestum Bláa Lónsins sem og öðrum en viðbragðsaðilum, jarðvísindamönnum, blaðamönnum og þeim sem vinna inn í Svartsengi er ekki heimilt að ganga að gosinu frá bílastæðum Bláa Lónsins eða frá Grindavíkurvegi.
Fylgst er vel með loftgæðum í Grindavík og inn í Svartsengi m.a. í góðu samstarfi við atvinnurekendur.
Há gildi af SO2 (brennisteinsdíoxíð) hafa mælst á svæðinu. Þessi mengun er talin mjög óholl og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra. Þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun.
Lögreglustjóri biðlar til íbúa Grindavíkur svo og annarra sem eiga hagsmuna að gæta inn á merktu hættusvæði að dvelja þar ekki að ástæðulausu. Þar geta skapast aðstæður sem geta verið lífshættulegar mönnum.
Þeir sem eiga erindi inn á hættusvæði er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/ Þar eru jafnframt að finna mjög gagnlegar leiðbeiningar. Bent er á góðar upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni: https://island.is/eldgos-heilsa og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni: https://vinnueftirlitid.is/