Bláa Lónið og SPOEX gera með sér samstarfssamning
Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins og Valgerður Auðunsdóttir, formaður samtaka psoriasis og exem sjúklinga (SPOEX), undirrituðu samstarfssamning milli Bláa Lónsins hf og SPOEX í gær, mánudaginn 21. febrúar, í Bláa Lóninu – heilsulind. Frá þessu er greint á vef Bláa Lónsins í dag.
Einn mikilvægasti hluti samstarfsins er að auka meðvitund fólks og þekkingu á sjúkdómnum en talið er að um 9000 manns á Íslandi séu með psoriasis. Samstarfið felst m.a. í því að Bláa Lónið styrkir samtökin vegna kynningar- og fræðslufunda innanlands auk þess sem það styrkir formann samtakanna vegna ferðalaga á fundi erlendra psoriasis samtaka. Þá mun Bláa Lónið styrkja samtökin sérstaklega vegna aðalfundar norrænu psoriasis samtakanna sem haldinn verður á Íslandi í vor.
Samstarfið gegnir mikilvægu hlutverki við að efla tengsl Bláa Lónsins og SPOEX við erlend psoriasis samtök og hefur mikla þýðingu við kynningu og uppbyggingu á nýrri lækningalind Bláa Lónsins sem tekin verður í notkun í vor.
VF-loftmynd/ Oddgeir Karlsson