Bláa Lónið leiðir uppbyggingu ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum
Fyrsta júlí næstkomandi verða ákveðin tímamót í íslenskri ferðaþjónustu en þá opnar ný og stórbætt aðstaða að Ásgarði í Kerlingarfjöllum undir heitinu Highland Base - Kerlingarfjöll – heilsárs áfangastaður á hálendi Íslands, með margs konar möguleika á gistingu og náttúruupplifun. Á staðnum verður hótel sem skiptist í herbergi, svítur og skála; svefnpokagisting í fjallaskálum; smáhýsi bæði fyrir einstaklinga og hópa; endurbætt tjaldsvæði; veitingastaður sem tekur 80 manns í sæti og margs konar möguleikar til útivistar og afþreyingar. Ný baðaðstaða opnar svo í Kerlingarfjöllum 1. október 2023. Uppbygging nýrrar aðstöðu í Kerlingarfjöllum hefur verið leidd af Bláa Lóninu sem tekur nú við rekstri ferðaþjónustu á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Kerlingarfjöll hafa verið ástsæll áfangastaður fyrir Íslendinga í áratugi og það er okkur sönn ánægja að kynna staðinn á ný fyrir gestum, nú þegar aðstaðan hefur tekið algerum stakkaskiptum,“ segir Grímur Sæmundsen, stofnandi og forstjóri Bláa Lónsins. „Í Kerlingarfjöllum eru ævintýri við hvert fótmál og hér verður aðstaða í boði á hálendinu sem á sér enga hliðstæðu. Sérstaklega leggjum við áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt framboð gistingar. Um leið hefur þess verið gætt við framkvæmdina að umhverfið og saga Kerlingarfjalla, sem er Íslendingum svo kær, njóti sín og því höfum við stigið varlega til jarðar í öllum þáttum þessarar uppbyggingar.“
Sjálfbærni og virðing fyrir sögunni í forgrunni
Nýja aðstaðan í Kerlingarfjöllum var þróuð frá grunni af hönnunarteymi Bláa Lónsins, Basalt arkitektum og Design Group Italia. Öll mannvirki eru reist í sátt og samræmi við náttúrulegt umhverfið, um leið og rík saga útivistar í Kerlingarfjöllum er höfð í heiðri. Hönnunar- og byggingarferlið fór allt fram í samræmi við BREEAM staðalinn, sem er leiðandi matsaðferð fyrir sjálfbærni nýbygginga á heimsvísu. Þá er hlýlegur einfaldleiki sem rauður þráður í gegnum alla hönnun innanstokks sem er í samræmi við umhverfið og ekki síður við sögu Kerlingarfjalla. Þetta á við um alla þá gistimöguleika sem í boði verða í Kerlingarfjöllum.
Stuðlað að betri umgengni við náttúruna
Við uppbyggingu í Kerlingarfjöllum hefur verið horft til umhverfismála í hvívetna. Framkvæmdir hafa til að mynda eingöngu farið fram á landi sem þegar hafði verið raskað og þess freistað að endurnýja eldri húsakynni eins og kostur er. Þá koma rekstraraðilar að gerð nýrrar Ferðaleiðarbókar um Kerlingarfjöll, þar sem sögunni eru gerð góð skil ásamt greinargóðum lýsingum á göngu- og öðrum ferðaleiðum um Kerlingarfjöll. Loks má nefna að náið er unnið með Umhverfisstofnun að merkingu gönguleiða, skilta- og kortagerð og svo miðlun upplýsinga til gesta Kerlingarfjalla. Allt miðar þetta að því að fleiri geti notið náttúru Kerlingarfjalla um leið og stuðlað er að betri umgengni ferðalanga.
Útivistarperla með ótal möguleikum
Kerlingarfjöll bjóða upp á nánast óteljandi möguleika til útivistar, fjallamennsku og afþreyingar. Litrík hverasvæði hafa lengi verið vinsæll viðkomustaður gesta og fjölmargar gönguleiðir eru á svæðinu. Kerlingarfjöll eru sannkölluð skíðaparadís, þá sérstaklega til fjallaskíðunar, og svo verður hægt að fara í göngur á snjóþrúgum um rjúkandi jarðhitasvæðið ásamt því að fara í lengri eða skemmri vélsleðaferðir.
Mikil saga og hefð fyrir útiveru
Kerlingarfjöll voru með öllu ósnortinn hluti hálendisins uns farið var með hópa þangað á fjórða áratug síðustu aldar. Í kjölfarið hóf Ferðafélag Íslands að skipuleggja ferðir á svæðið og reisti skála fyrir ferðalanga árið 1937. Árið 1961 verða Kerlingarfjöll svo helsti áfangastaður skíðaiðkenda að sumri til og við aðstöðuna bættust svefnálma og veitingastaður fyrir skíðanema. Áratugum saman flykktust þúsundir Íslendinga í Kerlingarfjöll á sumrin til að læra á skíði. Skíðaskólinn hætti svo starfsemi um síðustu aldamót og annars konar ferðaþjónusta tók við. Kerlingarfjöll, með stórendurbætta aðstöðu, bjóða gesti velkomna á ný frá og með 1. júlí á svæðið þar sem andi útivistar og ævintýra svífur sem fyrr yfir vötnum.