Bláa lónið kaupir Hreyfingu
Bláa Lónið hf hefur fest kaup á Hreyfingu - heilsurækt. Á heimasíðu heilsulindarinnar segir að kaupin skapi báðum fyrirtækjum aukin tækifæri til vaxtar á sviði heilsu og hreyfingar. Þó gegna fyrirtækin forystuhlutverki hvort á sínu sviði.
Ágústa Johnson mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra Hreyfingar en hún hefur verið framkvæmdastjóri allt frá stofnun fyrirtækisins árið 1998. Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins, verður stjórnarformaður Hreyfingar.
Grímur sagði í samtali við Víkurfréttir að Bláa lónið stefndi að því að efla markaðsstarf beggja fyrirtækjanna með nánu samstarfi. Uppi væru áætlanir um að byggja heilsulindarhótel með góðri aðstöðu til hreyfingar og myndi þessi fjárfesting nýtast vel í tengslum við það.
„Samstarfið skapar tækifæri til að samþætta þjónustu og efla þannig enn frekar stöðu fyrirtækjanna á sviði heilsu og hreyfingar, en saman eru þau með á annan milljarð króna í veltu og 150 starfsmenn,“ sagði Grímur.
„Við höfum áhuga á því að nýta þann möguleika sem felst í viðskiptavinahópi Hreyfingar en um er að ræða mjög öflugan hóp. Bláa lónið mun vonandi geta fært viðskiptavinum ákveðin fríðindi, hvort heldur sé út frá Hreyfingu eða heilsulindinni. Þetta eru fyrirtæki sem eiga mjög vel saman og vinna að miklu leyti á sama sviði,“ sagði Grímur um kaupin.
Ágústa getur með sinni þekkingu stutt uppbyggingu Bláa lónsins enn frekar en Grímur sagði að allt væri opið varðandi frekari stækkun Bláa Lónsins en þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið fjárfestir á þennan hátt. Verið væri að líta í kringum sig varðandi frekari útvíkkun á starfseminni og ekkert því til fyrirstöðu að kaupa erlend fyrirtæki sem væru með tengda starfsemi.