Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bláa Lónið hlýtur Njarðarskjöldinn
Föstudagur 11. desember 2009 kl. 18:40

Bláa Lónið hlýtur Njarðarskjöldinn

Bláa Lónið hlaut Njarðarskjöldinn í ár - hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar, Miðborgarinnar og Íslenskrar verslunar en að henni standa Félag Íslenskra Stórkaupmanna og Kaupmannasamtök Íslands. Markmiðið með veitingu verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar verslunarþjónustu við ferðamenn í Reykjavík. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins viðurkenninguna við opnun Jólaþorpsins á Hljómalindarreitnum í hjarta miðborgarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njörður, sem skjöldurinn er kenndur við, var upphaflega frjósemisguð en síðar guð sæfarenda og sagður fésæll mjög. Sæfarendur þess tíma stunduðu gjarnan kaupskap og því við hæfi að kenna árleg hvatningarverðlaun til ferðamannaverslunar við guð siglinga og viðskipta.


Hanna Birna sagði að við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einni skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsingu, aðkomu, tungumálakunnáttu starfsfólks og þekkingu á söluvörunum.


Grímur Sæmundsen sagði við þetta tækifæri að það væri mikill heiður að veita viðtöku Njarðarskildinum sem veitt er Blue Lagoon versluninni sem staðsett er að Laugavegi 15. Í máli hans kom fram að verslunin hafi allt frá því hún opnaði í júní 2005 hlotið góðar viðtökur á meðal bæði innlendra og erlendra viðskiptavina.


"Blue Lagoon Iceland er í dag eitt þekktasta vörumerki Íslands. Því fylgir viðurkenning en jafnframt ábyrgð sem felst ekki hvað síst í því að bjóða erlendum gestum okkar hágæða íslenskar vörur og þjónustu. Við hönnun og þróun verslunarinnar lögðum við áherslu að að skapa fallegt verslunarumhverfi sem hefði sterka skírskotun til Bláa Lónsins og náttúrulegs umhverfis þess.," sagði Grímur. "Á þeim tímum sem nú ríkja kemur enn skýrar í ljós hve mikilvægt hlutverk ferðaþjónustunnar er fyrir efnahagslíf landsins. Á sl. ári námu heildargjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar 110 milljörðum króna og verða þær um 150 milljarðar á þessu ári."


Að lokum þakkaði hann Reykjavíkurborg, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Miðborginni okkar og Kaupmannnasamtökunum fyrir þessa viðurkenningu og sagði Njarðarskjöldinn vera eigendum og starfsfólki Bláa Lónsins mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut við að efla ferðamannaverslun á Íslandi.


Myndin: Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, afhenti Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, Njarðarskjöldinn.