Bláa Lónið hlýtur Bláfánann í sjötta sinn
Bláfáninn var dreginn að húni við Bláa lónið miðvikudaginn 4. júní. Þetta er í sjötta sinn sem Bláa Lónið hlýtur þessa virtu umhverfisviðurkenningu sem veitt er baðströndum og smábátahöfnum.
Börn af leikskólanum Króki í Grindavík drógu fánann að húni og sungu tvö lög í tilefni dagsins, en leikskólinn fékk nýverið afhendan Grænfánann fyrir markvissa vinnu í tengslum við umhverfisverndarmál.
Bláa lónið var fyrsti staðurinn á Íslandi til að fá Bláfánann en honum var fyrst flaggað við Bláa lónið fyrir fimm árum síðan. Í frétt á vef Bláa Lónsons segir Sigrún Pálsdóttir verkefnisstjóri Landverndar það sérstaklega ánægjulegt að veita Bláa lóninu þessa alþjóðlegu viðurkenningu í sjötta sinn. „Bláa lónið er einn þekktasti áfangastaður Íslands og táknrænt fyrir hreina náttúru landsins,“ sagði Sigrún.
Á vefnum er einnig haft eftir Dagný Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Bláa Lónsins hf, þar sem hún segir það bæði hvetjandi og ánægjulegt fyrir starfsmenn Bláa Lónsins að flagga Bláfánanum í sjötta sinn. Lónið hafi að geyma 6 milljón lítra af jarðsjó, sem endurnýjar sig á 40 stunda fresti. Reglulegar prófanir sýni að algengar bakteríur þrífast ekki í vistkerfinu, þannig ekki sé þörf á viðbættum hreinsunarefnum svo sem klór. Ennfremur þakkaði Dagný börnunum af leikskólanum Króki fyrir heimsóknina en þátttaka þeirra í afhendingu Bláfánans minni hana á mikilvægi þess að horfa til framtíðar og hugsa vel um umhverfið.
VF-mynd/elg