Bláa Lónið hagnast um 1,3 milljarða
647 þúsund gestir og 330 starfsmenn í fyrra.
„Vöxtur Bláa Lónsins undanfarin ár hefur verið í takt við þróun ferðaþjónustunnar sem í dag aflar þjóðinni meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein. Nýtt met var sett í fjölda gesta árið 2013 þegar 647 þúsund gestir heimsóttu Bláa Lónið. Sumarið 2013 störfuðu 330 manns hjá Bláa Lóninu,“ Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, en fyrirtækið skilar 1,3 milljarða hagnaði fyrir árið 2013.
Áhersla Bláa Lónsins á gæði og upplifun gesta hafi borið góðan árangur eins og greina megi af rekstri félagsins árið 2013. Nú sé unnið að áframhaldandi uppbyggingu sem felst í stækkun á upplifunarsvæði Bláa Lónsins þar sem áherslan verður áfram á einstaka upplifun gesta og gæði. „Öflugt vísindastarf er einnig einn af hornsteinum fyrirtækisins. Frekari þekkingaruppbygging styrkir áframhaldandi nýsköpun og vöruþróun innan Bláa Lónsins og gerir fyrirtækið samkeppnishæfara um leið og hún er grunnur að frekari vexti Bláa Lónsins.“
Helstu niðurstöður uppgjörs Bláa Lónsins vegna ársins 2013:
• Hagnaður eftir skatta var 1.352 milljónir króna.
• Hagnaður Bláa Lónsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var 2.127 milljónir
króna.
• Eiginfjárhlutfall Bláa Lónsins hf. var 30%.
• Handbært fé frá rekstri var 1.809 milljónir króna.
• Eignir voru 7.273 milljónir króna.
• Á aðalfundi Bláa Lónsins hf. sem haldinn var þann 4. apríl sl. var arðgreiðsla til
hluthafa að upphæð 931,3 milljónir króna samþykkt.