Bláa lónið hagnaðist um 2,6 milljarða króna
-Unnið að áframhaldandi uppbyggingu lónsins
Hagnaður Bláa lónsins í fyrra nam um 2,6 milljörðum íslenskra króna, en eiginfjárhlutfall Bláa Lónsins var 49%. Handbært fé frá rekstri fyrirtækisins nam um 3 milljörðum en eignir félagsins námu um 12 milljörðum. Velta fyrirtækisins á árinu nam 8,7 milljörðum króna.
Á aðalfundi Bláa Lónsins hf. sem haldinn var þann 14. júní sl. var arðgreiðsla til hluthafa, að upphæð sem nemur um 1,45 milljörðum króna, samþykkt.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, sagði að áhersla á fjárfestingar í gæðum og upplifun gesta hefði borið góðan árangur. „Öflug og virk aðgangsstýring hefur meðal annars leikið lykilhlutverk í því efni. Unnið er að áframhaldandi uppbyggingu sem felst í stækkun á upplifunarsvæði Bláa Lónsins og nýju hágæðahóteli, þar sem áherslan verður áfram lögð á einstaka upplifun gesta og mikil þjónstugæði. Nýja upplifunarsvæðið og hótelið munu opna á síðari hluta ársins og verður það mikilvægur áfangi í starfsemi Bláa Lónsins. Nú starfa í kringum 600 manns hjá Bláa Lóninu og ljóst er að þeim mun fjölga umtalsvert við þessi auknu umsvif.“