Bláa lónið: fjölbreytt dagskrá í tilefni alþjóða psoriasis dagsins
Alþjóðlegur psoriasis dagur verður haldinn föstudaginn 29. október nk og er þetta í fyrsta sinn sem dagurinn er haldinn. Í tilefni dagsins mun Bláa Lónið - húðlækningastöð bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Laugardaginn 30. október verður opið hús á milli klukkan 13.00 og 16.00 fyrir þá sem hafa áhuga á að koma og kynna sér starfsemina sem þar fer fram. Klukkan 13.30 mun starfsmaður Bláa Lónsins bjóða upp á skoðunarferð í nýja húðlækningastöð sem mun opna vorið 2005. Fólk með psoriasis og fjölskyldur þeirra fá frían aðgang í lón húðlækningastöðvarinnar. Einnig verður þeim boðið í Gjána, sem er fræðandi upplýsingamiðstöð um íslenska jarðfræði, staðsett í Eldborg, skammt frá húðlækningastöðinni.
Tilgangur dagsins er fyrst og fremst að vekja athygli á sjúkdómnum og fræða bæði fólk með psoriasis og almenning um sjúkdóminn. Heimsdagurinn verður einnig nýttur til þess að kynna þá meðferðarkosti sem í boði eru. Þá verða heilbrigðisyfirvöld víðsvegar um heim hvött til þess að hlúa betur að málefnum fólks með psoriasis, segir í fréttatilkynningu.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson.