Bláa Lónið fær Bláfánann
Í dag var Bláfáninn dregin að húni í Bláa lóninu.
Baðstrandir fá að flagga Bláfánanum ef sýnt þykir að þar hefur verið kappkostað að vernda umhverfið, bæta öryggismál og aðstöðu á baðströndinni og veita fræðslu um náttúruna og umhverfisvernd. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landvernd
Bláfáninn er veittur til eins árs í senn og var í fyrsta sinn veittur á Íslandi árið 2003. Í Evrópu allri verða tæplega 3.000 Bláfánar dregnir að húni í sumar, en verkefnið nýtur stuðnings samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Samskipa.
Bláfánatímabilið stendur til 15. október n.k. og fyrir árslok hefst undirbúningur að næsta tímabili.
Fjórir staðir á Íslandi fá Bláfánann í ár þar sem þeir hafa með markvissum aðgerðum náð að uppfylla þau skilyrði sem sett eru og staðist úttekt bæði íslenskrar og alþjóðlegrar dómnefndar. Auk Bláa Lónsins eru það smábátahafnirnar í Stykkishólmi og í Borgarfirði Eystra og ylströndin við Nauthólsvík. Bláfáninn er alþjóðlegt merki sem hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis hafna og baðstranda. Bláfánann hljóta þeir einir sem leggja sig fram um að auka gæði og þjónustu stranda og smábátahafna og stuðla að verndun umhverfis.
Um 30 lönd eiga aðild að Bláfánanum. Samtökin Landvernd annast úthlutun og eftirlit með Bláfánanum á Íslandi og skipuleggja alla framkvæmd þar að lútandi í samstarfi við Fiskifélag Íslands, Félag umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa, Hafnasambandið, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og Samtök ferðaþjónustunnar.
Allar hafnir á landinu eiga möguleika á að sækja um þessa eftirsóttu alþjóðlegu viðurkenningu. Landvernd og aðrir aðstandendur verkefnisins vænta þess að enn fleiri Bláfánar verði dregnir að húni á næstu árum til vitnis um góða vilja landsmanna til að vernda haf og strandir.
VF-mynd/Þorgils Jónsson: Bláfáninn afhentur í Bláa Lóninu í dag