Bláa lónið byggir fjölbýlishús fyrir starfsfólk
- Gríðarlegur vöxtur síðustu ár
Vöxtur Bláa Lónsins hefur verið gríðarlegur síðustu ár og starfsmönnum fjölgað í samræmi við það. Bláa Lónið hefur fest kaup á fjölbýlishúsi í byggingu í Grindavík til að hafa möguleika á að bjóða starfsfólki sínu íbúðir. Að sögn Magneu Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Bláa Lónsins, er búist við því að það verði mikil fjölgun starfsmanna á næstu misserum.
„Hjá Bláa Lóninu starfa nú um 600 starfsmenn og við gerum ráð fyrir því að þeim fjölgi um 100 þegar nýframkvæmdir verða komnar í rekstur á næsta ári. Það er samkeppni á vinnumarkaði og því höfum við lagt áherslu á að greiða samkeppnishæf laun og bjóðum að auki ýmis fríðindi. Okkur hefur almennt gengið vel að ráða og halda í fólk enda er starfsandinn hér einstakur,“ segir Magnea
Framkvæmdir við fjölbýlishúsið ganga vel en húsið er staðsett við Stafholtsveg i Grindavík. Í húsinu verða 24 íbúðir 70 til 90 fermetra. „Það liggur ekkert fyrir um hvort við förum í frekari byggingaframkvæmdir,“ segir Magnea að lokum.