Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bláa Línan fer vel af stað
Miðvikudagur 28. júní 2006 kl. 16:28

Bláa Línan fer vel af stað

Reykjanesbær og Aðalbílar hafa hafið formlega samvinnu um rekstur áætunarferða á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Bláa Lónsins, en 3ja mánaða reynslusamningur þar að lútandi var undirritaður í vikunni. Bílarnir koma einnig við innan Reykjanesbæjar og fara til Grindavíkur, en ferðin kostar 500 kr.


Samningurinn, sem er hægt að framlengja í 3 mánuði í viðbót, er til reynslu og er tilgangurinn að meta þörfina á slíkum ferðum og rekstrargrundvöll fyrir þeim. Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, sagði í samtali við Víkurfréttir að áhugi á ferðunum hafi verið með ólíkindum og jafnvel hafi þurft að bæta við bílum til að anna eftirspurn. „Það er augljóst að það hefur verið vöntun á þessari þjónustu. Þessi hugmynd hefur verið lengi að gerjast hjá sveitarfélögum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu en nú er hún loks komin í framkvæmd og við getum þá séð fyrir alvöru hvaða tækifæri leynast í þessu fyrirkomulagi.“


Steinþór leitaði fyrir hönd Reykjanesbæjar til aðila hér á svæðinu og buðu Aðalbílar hagstæðasta tilboðið. Með þessu er verið að stórbæta samgöngunet milli ferðaþjónustustaða á Reykjanesi sem hefur ekki verið nægilega yfirgripsmikið. „Það hefur lengi verið vandamál að komast á milli staða, til dæmis úr Bláa Lóninu og í hvalaskoðun. Þetta gæti verið upphafið á mikilli bragarbót í þessum efnum og þéttingu samgöngunetsins sem mun ekki síður koma sér vel fyrir íbúa Suðurnesja. Þeim stendur auðvitað líka til boða að nota þjónustuna, til dæmis til að komast í Bláa Lónið. Þá er jafnvel möguleiki á því að bæjarbúar geti hringt í upplýsingasíma Aðalbíla, 421 1515, og fengið bíl til að sækja sig heim að dyrum.  Þetta er annars aukin þjónusta fyrir alla og það verður spennandi að sjá hvernig Bláa Línan gengur og hvort þetta sé það sem koma skal,“ sagði Steinþór að lokum.

VF-mynd/Þorgils: Frá undirritun samningsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Oddgeir Garðarsson, eigandi Aðalbíla, handsala samninginn. Með þeim á myndinni eru Steinþór Jónsson, Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri FLE, Stefán Bjarkason frá Reykjanesbæ og Anna Sverrisdóttir frá Bláa Lóninu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024