Björn Ingi á leið til Kanda til Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO)
Björn Ingi Knútsson Flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli er á leiðinni í frí frá og með næstu áramótum. Jón Böðvarsson mun taka við af Birni Inga á meðan hann heldur til starfa í Kanada fyrir Alþjóðaflugmálastofnunina.
Jón Böðvarsson er núverandi forstjóri Ratsjárstofnunar en hann mun gegna embætti flugvallarstjóra á Keflavíkurflugvelli fram til júníloka 2006, Ólafur Örn Haraldsson hefur verið ráðinn forstjóri Ratsjárstofnunar í stað Jóns. Björn Ingi Knútsson mun svo snúa aftur til starfa sem Flugvallarstjóri þann 1. júlí 2006.
Björn Ingi fer sem fulltrúi Íslands í Norðurlandasamstarfinu til starfa hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni í Kanada. „Nú er komið að okkur að sinna þeim störfum sem við höfum samþykkt að taka að okkur og ég lít á þetta sem mikið sóknarfæri fyrir mig sem einstakling og einnig fyrir Keflavíkurflugvöll til að styrkja skilning okkar og þekkingu á alþjóðaflugvallarrekstri sem og lögum og reglum er lúta að flugmálum í víðasta skilningi,“ sagði Björn Ingi Flugvallarstjóri í samtali við Víkurfréttir.
VF-mynd/Páll Ketilsson: á myndinni er Björn Ingi við flugslysaæfinguna í gær