Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björn Bjarnason um Gæsluna: Flugið til Keflavíkur - skipin í Reykjavík
Miðvikudagur 22. mars 2006 kl. 11:14

Björn Bjarnason um Gæsluna: Flugið til Keflavíkur - skipin í Reykjavík

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að hann og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra séu sammála um framtíð Landhelgisgæslunnar, þ.e. að flugstarfsemi Gæslunnar ætti að flytjast til Keflavíkur. Hins vegar sé Gæslan nýflutt í björgunarmiðstöðina Skógarhlíð og hann muni ekki gera tillögu um að það samstarf verði rofið. Morgunblaðið hefur þetta eftir Birni í blaðinu í morgun. Virðast þessi ummæli stangað að nokkru leyti á við það sem forsætisráðherra sagði á fundinum í Stapa í fyrradag.

Aðspurður um hvort aðstaðan í Keflavík væri eftirsóknarverðari en sú sem fyrir hendi er í Reykjavík, segir Björn aðeins að starfsemi Gæslunnar ætti að vera þar sem hún skili bestum árangri en tekur fram að aðstaðan fyrir skip Gæslunnar sé góð í Reykjavíkurhöfn og nýlega hafi þau verið flutt þar á nýjan stað með tilheyrandi kostnaði. Hann segist jafnframt í samtali við MBL ekki hafa séð neinar tillögur um aðra hafnaraðstöðu og viti ekki hvort eitthvað sé í boði í þeim efnum annarsstaðar.
Af þessum orðum Björns má skilja að hann sé sammála því að flugstarfsemin flytjist til Keflavíkur en skipin verði áfram í Reykjavík.

Þetta virðist stangast að nokkru leyti á við það sem Halldór Ásgrímsson sagði á fundinum í Stapa í fyrradag, þar sem hann sagði það ljóst að starfsemi Landhelgisgæslunnar þyrfti að aukast verulega og starfsemin yrði að verulegu leyti, hugsanlega að öllu leyti, á flugvallarsvæðinu. Sagði Halldór, að þetta væri nauðsynlegt vegna þess að aðstæður væru ekki nógu góðar þar sem Landhelgisgæslan væri nú og einnig væri þetta nauðsynlegt vegna öryggis flugvallarins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024