Björk opnaði innileikjagarð á Vallarheiði
Íþrótta- og tómstundasvið Reykjanesbæjar opnaði í gær í samvinnu við Háskólavelli ehf. sérútbúinn innileikvöll á Vallarheiði að Víkingabraut 778.
Það var Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sem opnaði völlinn en henni til aðstoðar voru nemendur í leikskólanum Velli á Vallarheiði.
Innileikvöllurinn verður opinn til reynslu í þrjá mánuði en rúlluakautahöll í næstu byggingu við verður einnig opin á sama tíma.
Opið verður frá kl. 14:00 - 17:00 alla daga og er aðgangur ókeypis.
Starfsmaður Íþrótta- og tómstundasviðs verður á staðnum á opnunartíma en óskað er eftir því að foreldrar/forráðamenn verði með börnum sínum á meðan þau dvelja á innileikvellinum.