Björgvin G. Sigurðsson: „Vonandi fer nú allt á fulla ferð“
Gerðardómur komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að orkusölusamningur aðila sé í fullu gildi, og að HS Orka sé skuldbundin til þess að afhenda Norðuráli þá raforku sem samningurinn tilgreinir í samræmi við skilmála hans.
Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis segir að afar ánægjulegt sé hve afgerandi niðurstaðan Gerðadóms sé. „Við sem höfum stutt þetta um árabil finnst frábært í hvaða átt dómurinn féll og vonandi mun þetta hafa í för með sér að verkefnið fari nú á fulla ferð. Þetta er mikill léttir og mikið ánægjuefni fyrir okkur sem höfum bundið við þetta miklar vonir,“ sagði Björgvin í samtali við Víkurfréttir.
Búið sé að fjármagna fyrsta áfangann og Björgvin efast ekki um að menn geti nú sest niður og hnýtt lausu endana þannig að HS Orka fái fjármögnum á þær auknu virkjanaframkvæmdir sem þarf að ráðast í til að skila þessu. Björgvin segir einnig að mestu máli skipti að það sé búið að eyða allri óvissu og deilum um gerða samninga sem var vafi um að stæðust vegna breyttra forsenda.
„Svo er ekki og samningarnir standa. Það er afar ánægjulegt og þetta mesta uppbyggingarverkefni á landinu getur farið af stað. Ég trúi ekki öðru en að menn haldi svo um taumana að svo geti orðið fljótlega á næsta ári,“ sagði Björgvin en hann er vongóður um að svo verði og að nú ætti ekkert að standa í vegi fyrir þessum framkvæmdum.