Björgvin G. Sigurðsson segir Víkurfréttir ósvífnar
Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, segir Víkurfréttir fara viljandi á svig við sannleikann þegar fluttar voru fréttir af því í gær að ekki væri minnst einu orði á Reykjanesbæ í tilkynningu Félags- og tryggingamálaráðuneytisins um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra.
„Og okkur íbúum á Suðurnesjum gert að trúa því að ekkert af þeim fjárveitingum sem úthlutað var úr framkvæmdarsjóði aldraðra rynni til Suðurnesja. Það verður að teljast ótrúlega ósvífið að þeir sem þessa frétt skrifuðu eða kannski frekar sendu til blaðsins haldi sig ekki við það sem rétt er,“ svo vitnað sé orðrétt til orða Björgvins. Segir Björgvin jafnframt að frétt Víkurfrétta sé beinlínis röng.
Birtir Björgvin síðan tilkynningu ráðuneytisins til VF, sem vf.is hafa einnig birt, og segir síðan í ljósi framangreindra upplýsinga: „Vil ég því biðja Víkurfréttir um að koma þessu á framfæri og tryggja þar með að þær upplýsingar sem gefnar eru um þetta séu frá fyrstu hendi og ekki afbakaðar á þann hátt er birtur var í Víkurfréttum í gær.“
Það skal upplýst hér og nú að umrædd frétt á vef Víkurfrétta í gær var frá fyrstu hendi, en hún var unnin upp úr fréttatilkynningu Félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem nálgast mátti á vef Stjórnarráðssins. Eins og kemur fram í fréttinni í gær er þar ekki minnst einu orði á Reykjanesbæ eða önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Þar eru hins vegar taldar upp hinar ýmsu framkvæmdir niður í allt að 15 milljónir króna á Siglufirði. Í ljósi þess að Víkurfréttir hafa nýverið fjallað um brýna þörf um 30 einstaklinga í Reykjanesbæ fyrir hjúkrunarrými, mátti draga ályktun af fréttatilkynningunni um að ekki hafi komið króna í hjúkrunarrými á Suðurnesjum. Í frétt Víkurfrétta segir að lokum: „Af þessari upptalningu má lesa að ekki hafi komið fjárveitingar til Suðurnesja til að taka á brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra lagði til að afgreiðslu tíu umsókna yrði frestað þar sem þörf væri á ítarlegri upplýsingum til skýringa á til að taka afstöðu til þeirra og féllst ráðherra á það. Hvort Reykjanesbær sé þar á meðal kemur ekki fram í tilkynningu ráðuneytisins“.
Í samtali Víkurfrétta í morgun við skrifstofustjóra í Félags- og tryggingamálaráðuneytinu kom fram að úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi verið veitt um 22 milljónum króna til Suðurnesja af þeim um eitt þúsund milljónum sem voru til úthlutunar. Þessar 22 milljónir skiptast á fjögur verkefni í Sandgerði, Garði og í Reykjanesbæ, þar sem tvö verkefni fengu úthlutun. Þá er beðið ítarlegri gagna í tveimum öðrum málum sem sótt var um frá Suðurnesjum.
Það er fjarstæða að fréttaflutningur Víkurfrétta hafi verið skrifuð af sjálfstæðismönnum og send til blaðsins. Svo því sé haldið til haga þá er fréttin skrifuð í framhaldi af kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem fjallað var um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Í framhaldi af þeirri frétt var það ákvörðun blaðamanns að kanna hvort eitthvað hafi fallið Reykjanesbæ eða Suðurnesjum í hlut. Það var ekki hægt að lesa út úr fréttatilkynningu Félags- og tryggingamálaráðuneytisins og var tekið fram í fréttinni á vf.is í gærkvöldi. Það kallar Björgvin afbakaðan fréttaflutning Víkurfrétta.
Frétt vf.is í gærkvöldi er Víkurfrétta og skrifuð með hliðsjón af tilkynningu ráðuneytisins. Ásökunum um annað er vísað til föðurhúsanna.
Þá viljum við bjóða Björgvin G. Sigurðsson velkominn í hóp íbúa á Suðurnesjum því annað má ekki lesa úr aðsendri grein hans til vf.is þar sem segir í upplýsingum frá fyrstu hendi: „og okkur íbúum á Suðurnesjum…“
Með bestu kveðju og óskum um að kosningaskjálftinn fari ekki illa með fólk.
Ritstjórn Víkurfrétta.