Björgunarsveitum líkar illa að vera áhorfendur af hliðarlínunni
Björgunarsveitum líkar inna að vera áhorfendur af hliðarlínunni þegar stórar flugslysaæfingar eru haldnar á Keflavíkurflugvelli. Þær vilja björgunarstjórn á vettvangi í hendur lögreglunnar á Suðurnesjum eða til Brunavarna Suðurnesja, aðila sem eru vanir að takast á við slysavettvang úr raunveruleikanum.
Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum voru við æfingar á Keflavíkurflugvelli á laugardag en þar var efnt til umfangsmikillar viðbragðsæfingar samkvæmt neyðaráætlun vegna flugverndar og flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll. Keflavíkur-flugvöllur ohf. og lögreglustjórinn á Suðurnesjum, í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að æfingunni.
Æfingin er almannavarnaæfing þar sem allir viðbragðsþættir eru prófaðir fyrstu klukkustundir eftir flugslys. Líkt er eftir sprengjuhótun um borð í flugvél sem endar með slysi eftir lendingu og æfð samvinna viðbragðsaðila með áherslu á samþættingu beggja áætlana. Er þetta í fyrsta sinn sem viðbrögð eru æfð samkvæmt báðum þessum áætlunum samtímis.
Þátttakendur í æfingunni voru allir viðbragðsaðilar á Suðurnesjum, slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkraflutningar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, lögregla, Landhelgisgæslan og flugrekstrar- og þjónustuaðilar ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra og Sam-hæfingarstöðinni Skógarhlíð, alls rúmlega 300 manns. Undirbúningur æfingarinnar hefur staðið um all langt skeið en svo umfangsmikil æfing var síðast haldin á Keflavíkurflugvelli haustið 2004.
Í samtölum Víkurfrétta við viðbragðsaðila eftir æfinguna voru menn ánægðir með að slík samæfing ætti sér stað. Hins vegar eru björgunarsveitirnar ósáttar við það sem kallast björgunarstjórn á vettvangi og útdeilingu verkefna til þess fjölmenna björgunarliðs sem komið er á vettvang.
Finnst þeim sem skipuleggjendum æfingarinnar hafi ekki unnið heimavinnuna sína nægilega vel og vilja sjá björgunarstjórn setta í hendur aðila eins og Lögreglunnar á Suðurnesjum eða Brunavarna Suðurnesja, aðila sem eru vanir að vinna með stóran slysavettvang úr raunveruleikanum utan girðingar, ekki síst í ljósi þess að Slökkvilið Keflavíkurflugvallar minnkar ört og vægi viðbragðsaðila í nágrenni Keflavíkurflugvallar eykst að sama skapi.
Björgunarsveitarmönnum líkar það illa að vera áhorfendur á hliðarlínunni með allan sinn mannskap og tæki, ef marka má samtöl Víkurfrétta eftir æfinguna.
Myndband frá flugslysaæfingunni á Keflavíkurflugvelli er komið inn á vefinn.