Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitir í viðbragsstöðu vegna óveðurs
Fimmtudagur 23. október 2008 kl. 09:46

Björgunarsveitir í viðbragsstöðu vegna óveðurs

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Björgunarsveitir á Suðurnesjum eru í viðbragðsstöðu vegna slæmrar veðurspár þegar líður á daginn. Þannig gerir spáin ráð fyrir norðvestan 18-25 og snjókomu síðdegis en 20-28 í kvöld. Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, segir sitt fólk vera tilbúið að takast á við þau útköll sem kunna að berast í kvöld. Kári sagði aðkallandi að fólk komi hlutum eins og trampólínum í öruggt skjól. Þá eigi sólhúsgögn og grill að vera komin í geymslu. Mestar áhyggjur hefur Kári þó af byggingasvæðum. Reynslan frá síðasta vetri hafi verið sú að alltof oft hafi verið um fok að ræða frá byggingasvæðum þar sem járnplötur og annað lauslegt hafi farið af stað og fokið í bíla og önnur hús með tilheyrandi tjóni.



Varúðarráðstafanir í óveðri


Þegar sterkur vindur gengur yfir skapast mesta hættan þegar lausir hlutir fjúka. Því er mikilvægt gæta þess að festa þá vel og tryggilega eða koma þeim fyrir innandyra.


Við flest íbúðarhús er um að ræða hluti í garði og á svölum, svo sem garðhúsgögn, grill, hitara og trampólín. Fari þessir hlutir af stað er hætta á að þeir lendi á rúðum og brjóti þær eða skemmi bifreiðar.


Fullvissið ykkur öllum gluggum og dyrum sé vel lokað. Brotni rúða skal heimilisfólk yfirgefa herbergið, loka dyrum og hringja eftir aðstoð björgunarsveita í síma Neyðarlínunnar 112


Gangið úr skugga um að þakplötur séu tryggilega festar, einnig þakrennur, grindverk og annað. Húsbyggendur ættu að sýna sérstaka varkárni í þeim efnum.


Tryggið að hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagnar og dráttarkerrur séu í skjóli við ríkjandi vindátt og að kyrfilega sé gengið frá þeim.


Dveljið innandyra meðan veðrið geysar og fylgist með verðurfréttum og tilkynningum í fjölmiðlum.


Séu varúðarráðstafanir gerðar aukast líkur á að þessi djúpa haustlægð fari yfir landið án þess að skapa teljandi vandkvæði.