Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast á aðfangadag
Björgunarsveitirnar á Suðurnesjum höfðu í nógu að snúast á aðfangadag og komust síðustu björgunarsveitarmenn heim til sín rétt í þann mund er jólaklukkur hringdu inn jólin.
Helstu verkefnin á aðfangadag voru að hefta fok og vernda eignir fyrir foki. T.a.m. var Björgunarsveitin Suðurnes kölluð að húsnæði bílaleigu við Leifsstöð þar sem vinnupallur var að fjúka.
Björgunarsveitin Ægir í Garðinum var kölluð út vegna foks á þakjárni en í þriðja skiptið á um einu ári var járn að fjúka af sama íbúðarhúsinu í Garði. Lögregla mætti á staðinn og ræddi við húseiganda og gerði athugasemdir við ástand þaksins á húsinu.
Þessi vinnupallur á flugstöðvarsvæðinu var að fjúka...
... og þetta húsþak var ekki að fjúka í fyrsta skiptið á árinu. Þrjú útköll hafa borist vegna þessa þaks síðan í desember á síðasta ári.
VF-myndir: Hilmar Bragi