Björgunarsveitin Þorbjörn þakklát fyrir styrkinn
Eins og Víkurfréttir greindu frá í gær ákvað ríkisstjórn Íslands að styrkja Björgunarsveitina Þorbjörn um tíu milljónir króna til að efla áframhaldandi starf björgunarsveitarinnar en Björgunarsveitin Þorbjörn hefur verið í lykilhlutverki undanfarin ár vegna viðvarandi eldsumbrota á svæðinu.
Björgunarsveitin lýsti þakklæti sínu á Facebook-síðu sinni með eftirfarandi orðum:
„Takk!
Í dag fengum við 10 milljón króna styrk frá ríkinu vegna eldgosanna hérna í garðinum hjá okkur á síðustu árum. Við erum ótrúlega þakklát fyrir þennan rausnarlega styrk sem sannarlega kom okkur á óvart.
Frá árinu 2020 hefur sveitin verið í stöðugum undirbúningi vegna eldgosavár hér á svæðinu og síðar tekist á við þrjú eldgos. Á þeim tíma höfum við meðal annars sett upp fullkomna aðgerðarstjórnstöð auk þess að hafa keypt gasmæla og gasgrímur fyrir margar milljónir, milljónir sem við höfum safnað með sölu á flugeldum og vinnu við eldgosin. Þennan búnað og þessa aðstöðu höfum við svo lánað öllum sem hafa þurft á að halda hvort sem það eru aðrar björgunarsveitir, lögregla eða aðrir aðilar. Óhætt er að segja þetta sé ekki staðalbúnaður hjá björgunarsveitum og því kemur þessi styrkur sér ákaflega vel til þess að mæta þessum kostnaði.
Frá því fyrst gaus í Geldingadal árið 2021 höfum við algjörlega stólað á aðrar björgunarsveitir í okkar störfum, sérstaklega þær sem eru á okkar svæði. Ef ekki væri fyrir frábært samstarf allra sem taka þátt í þessu verkefni þá hefði þetta aldrei gengið svona vel. Liðsheildin skiptir öllu máli og vonandi mun samstarfið halda áfram að blómstra.
Takk fyrir okkur.“