Björgunarsveitin Þorbjörn komin heim í Grindavík
„Þetta er okkar leið til að taka þátt í uppbyggingu Grindavíkur. Við erum Grindvíkingar, björgunarsveitin er grindvísk og því eigum að vera í Grindavík. Við erum nokkur að vinna í Grindavík og við verðum líklega með einn til tvo bíla klára í Vogum, þar sem nokkrir meðlimir sveitarinnar búa. Við erum mjög þakklát þeim sem hýstu okkur í Reykjanesbæ en var gott og gaman að koma til Grindavíkur í gær, við grilluðum og áttum saman góða stund,“ segir Guðni Oddgeirsson, meðlimur björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
Þessi stöðuuppfærsla birtist á Facebook-síðu Þorbjarnar í gær:
Komin heim
Eftir 8 mánaða fjarveru höfum við björgunarsveitarfólk í Grindavík snúið til baka í björgunarsveitarhúsið okkar í Grindavík.
Í kjölfar rýmingar í nóvember s.l. var ákveðið að færa aðsetur sveitarinnar til Reykjanesbæjar, í fyrstu á Slökkvistöðina í nokkra daga en svo að Stapabraut 1 í Njarðvík hvar við höfum verið síðan þá með flest allt okkar dót. Það var svo nú í kvöld (mánudagskvöld) að 30 félagar sveitarinnar mættu til þess að flytja, þrífa og endurskipuleggja allan okkar búnað og gera klárt fyrir næstu verkefni
Við höfum verið svo lánsöm að geta bæði haldið úti félagsstarfi okkar og útkallsgetu frá því í nóvember þó svo að aðstæður okkar hafi breyst mjög mikið. Starfið í björgunarsveit er fyrst og fremst félagsstarf og er óhætt að segja að hópurinn, sem telur tæplega 50 manns, sé ákaflega þéttur og vel samstilltur en það hefur reynst vera lykilatriði.
Að því sögðu má taka fram að allir félagar sveitarinnar eru í dag fluttir úr Grindavík. Nokkrir félagar starfa þó í Grindavík á daginn og um helmingur hópsins býr svo á Suðurnesjunum. Þrátt fyrir þetta ætlum við að halda áfram að sinna útköllum og verkefnum en fyrst og fremst halda áfram okkar góða félagsstarfi í Grindavík