Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík við öllu búin
Steinar Þór Kristinsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 5. júlí 2023 kl. 17:00

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík við öllu búin

„Mikil reynsla sem skapaðist í síðustu eldgosum,“ segir Steinar Þór Kristinsson, liðsmaður björgsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík stóð í stórræðum í síðustu tveimur eldgosum en þegar mest var, voru tugir björgunarsveitamanna á vaktinni við gosstöðvarnar. Mikil reynsla skapaðist sem sveitin býr að í dag og þegar blaðamaður Víkurfrétta kíkti í heimsókn í höfuðstöðvarnar var Steinar Þór á vaktinni. Björgunarsveitarfólk er að sjálfsögðu á vaktinni og fylgist vel með framgangi mála.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Steinar gegndi formennsku um tíma í björgunarsveitinni en Bogi Adolfsson hefur gengt formennsku undanfarin ár en er rólegur í útilegu á meðan ekki er meira í gangi. Steinar fór yfir hvernig staðan er í dag. „Við erum alveg slakir, við vitum að hverju við göngum og ef eða þegar fjörið byrjar, er ekki annað að gera en kveikja ljósin og setjast við tölvuna og skipuleggja. Eina óvissan er staðsetningin, þetta virðist vera norðar en síðast en á sömu sprungu við Keili. Tækjabúnaðurinn okkar er alltaf klár og ef eða þegar sprungan opnast og gosið hefst, þurfum við að stýra umferð, bæði bíla og gangfarenda en eins og ég sagði, við öfluðum okkur mikillar reynslu í síðustu gosum og erum við öllu búnir.“

Það var nánast allt félagatal Landsbjargar sem kom að síðustu gosum en mesta stýringin fór fram frá Reykjanesi, mikið frá Grindavík. Eins og allir vita er um sjálfboðastarf að ræða hjá björgunarsveitafólkinu, Steinar sagði að þetta hefði verið mikil vinna síðast. „Það voru tugir manna á vaktinni þegar mest var og þetta var mikil vinna, því er ekki hægt að neita. Björgunarsveitirnar fá styrki frá hinu opinbera en við björgunarsveitarfólkið gerum þetta í sjálfboðastarfi, öðruvísi myndi þetta ekki ganga upp,“ sagði Steinar að lokum.