Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitin Þorbjörn hlaðin gjöfum á Sjómannadag
Þriðjudagur 9. júní 2015 kl. 08:41

Björgunarsveitin Þorbjörn hlaðin gjöfum á Sjómannadag

Framlag björgunarsveitarinnar Þorbjarnar til sjómennsku í Grindavík verður seint metið til fjár. Félagar í sveitinni vinna mikið og óeigingjarnt starf í hvert sinn eitthvað bjátar á hjá sjófarendum við strendur Grindavíkur og sjálfboðaliðar sveitarinnar hafa fórnað ófáum vinnustundum og jafnvel lagt eigið líf í hættu til að koma öðrum til bjargar, bæði á sjó og landi. Þá má ekki gleyma framlagi sveitarinnar til Sjóarans síkáta þar sem hún sinnir margskonar gæslu á hátíðinni og sér um ýmsa viðburði.
 
Á Sjómannadeginum í ár tók sveitin formlega í gagnið nýjan bát sem Einhamar Seafood færði sveitinni að gjöf í fyrra ásamt Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur. Þá gerði björgunarsveitin glæsilegan samning við útgerðarfyrirtækið Vísi sem mun styrkja sveitina um 9 milljónir næstu þrjú ár.
 
Þá er ekki allt upptalið. Eftirfarandi pistill birtist á Facebook síðu björgunarsveitarinnar og endurbirtum við hann hér:
 
„Við í björgunarsveitinni Þorbirni erum alveg upp með okkur eftir daginn og þessi meðbyr sem við höfum í okkar samfélagi er ótrúlegur og eiginlega ólýsanlegur. Fyrir utan það að taka þátt í hefðbundnum hátíðarhöldum vegna dagsins þá vígðum við glæsilegan nýjan slöngubát sem björgunarsveitin fékk að gjöf frá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur og Útgerðarfélaginu Einhamri á sama degi fyrir ári síðan. Við gerðum tímamótasamning við útgerðarfélagið Vísir Hf. sem styrkir okkur um 9 milljónir á næstu þremur árum. Að auki tókum við við 10 nýjum VHF talstöðvum að verðmæti 1.600.000 kr,- frá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur ásamt því að Vísir Hf. gaf okkur 700.000 kr,- fyrir nýrri kerru undir nýja bátinn. Við erum orðlaus. Einlægar þakkir til Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og ekki síður til eigenda og forsvarsmanna Vísis Hf. í Grindavík fyrir ómetanlegan stuðning síðustu ár en án ykkar og ykkar líkra værum við ekki til.
Framtíðin er björt og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“
 
Frá þessu var greint á vefsíðu Grindavíkurbæjar. 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024