Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitin Suðurnes á hálendinu
Miðvikudagur 26. júlí 2006 kl. 14:44

Björgunarsveitin Suðurnes á hálendinu

"Ferðin gekk mjög vel og við lentum ekki í alvarlegum útköllum. Vorum mikið í að stoppa litlu Yarisana frá því að fara í árnar," segir Siggeir Pálsson, bílstjóri hjá Kaffitári og virkur meðlimur í Björgunarsveitinni Suðurnes sem nýverið lauk sinni þátttöku í verkefninu "Björgunarsveitir á hálendinu" sem Slysavarnafélagið Landsbjörg stendur fyrir nú í sumar. Siggeir segir að oft viti erlendir ferðamenn ekki nægilega mikið um hálendið, t.d. um það hversu hættulegar árnar eru og svo þá staðreynd að farsímar eru sambandslausir á þessu svæði.

Verkefnið felst í því að Slysavarnafélagið Landsbjörg staðsetur fjórar björgunarsveitir uppi á hálendinu frá 30. júní til 18. ágúst. Hálendinu er skipt gróft upp i fjögur svæði; Kjalveg og nágrenni, Sprengisandsleið, Fjallabaksleiðir og svæðið norðan Vatnajökuls, og er ein björgunarsveit staðsett á hverju þeirra. Björgunarsveitin Suðurnes  var á svæðinu við Fjallabak og lagði til mannskap og búnað í eina viku. 

Nokkuð mikil umferð var um hálendið þessa viku og segist Siggeir hafa hitt mikið af skemmtilegu fólki, bæði Íslendinga sem og útlendinga. Björgunarsveitarmönnum var alls staðar vel tekið og vakti sérútbúinn björgunarsveitarjeppinn mikla athygli, sérstaklega hjá erlendum ferðamönnum. "Ég er viss um að nú eru til myndir af þessum bíl í hverjum heimshluta."

Markmið verkefnisins er fjórþætt, þ.e. að fækka slysum, vera með viðbragðseiningar á hálendinu, veita ferðamönnum aðstoð og upplýsingar auk þess sem sveitirnar vinna við að merkja vöð og aðrar hættur í samvinnu við Vegagerðina.  Gert er ráð fyrir að þátttaka hafi ekki kostnað í för með sér fyrir björgunarsveitirnar sem mannaðar eru sjálfboðaliðum  og verður olía á bílana greidd með styrkjum frá Flugleiðum, Alcan og Pokasjóði.

Siggeir segir að verkefnið sé sniðugt og að þörf sé fyrir slíka gæslu á hálendinu yfir sumartímann. " Ég mæli reyndar með því að á Fjallabaksleið verði tveir bílar næsta sumar því svæðið er víðfemt. Ef sinna þarf alvarlegum útköllum getur tekið langan tíma að komast á staðinn."

 

Mynd: Úr starfi Björgunarsveitarinnar Suðurnes.




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024