Björgunarsveitin kom á varaafli í Grindavík
Frá því rafmagnslaust varð á öðrum tímanum í dag í Grindavík hefur björgunarsveitin Þorbjörn ásamt fleiri aðilum unnið að því að koma varafli á mikilvæga staði í samfélaginu.
Stuttu eftir að rafmagnið fór af bænum var björgunarsveitin kölluð út og hafist var handa við að koma varafli á húsnæði björgunarsveitarinnar, sem hýsir meðal annars vettvangsstjórn og fulltrúa almannavarnardeildarinnar á svæðinu. Einnig var sjúkrabíllinn færður í húsnæði sveitarinnar.
Mikið átak hefur verið unnið í að efla varaafl á landinu eftir atburði undanfarinna 14 mánaða og hefur sérstök áhersla verið á að tryggja varaafl fyrir fjarskipainnviði. Því eru björgunarsveitir búnar að undirbúa þau verkefni vel og æfa reglulega, skamma stund tók að koma varafli á húsið og síðar var farið að vinna í því að tryggja varaafl fyrir mikilvæga fjarskiptainnviði á svæðinu í samstarfi við Neyðarlínuna.
Björgunarsveitarfólk kom einnig varaafli á dvalarheimili fyrir aldraða og verið er að undirbúa mögulega opnun fjöldahjálparstöðvar í Hópsskóla og hefur varafli einig verið komið á skólann.