Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitin Ægir fagnar 70 ára afmæli í haust
Mánudagur 6. júní 2005 kl. 11:29

Björgunarsveitin Ægir fagnar 70 ára afmæli í haust

Björgunarsveitin Ægir í Garði fagnar 70 ára afmæli á þessu ári. Sveitin var stofnuð árið 1935. Haldið verður upp á afmælið í haust með veglegum hætti. Í tilefni tímamótanna verður gefið út veglegt afmælisrit og bæjarbúum og velunnurum boðið til afmælisveislu.

Björgunarsveitin Ægir hefur síðustu ár verið að koma sér vel fyrir í Þorsteinsbúð, björgunarstöðinni að Gauksstöðum í Garði. Þar er félagsaðstaða Björgunarsveitarinnar Ægis og Slysavarnadeildarinnar Unu í Garði.

Ein helsta fjáröflun Björgunarsveitarinnar Ægis er útleiga á geymslum fyrir tjaldvagna, fellihýsi og húsbíla, en sveitin hefur yfir að ráða góðu rými fyrir þá starfsemi.

Í sumar stendur til að ljúka endurbótum á Þorsteinsbúð en þá verður lokið við að skipta um þak á húsinu og að klæða það á utan. Einnig verður lokið við félagsaðstöðu inni í húsinu. Þá verður bílafloti sveitarinnar endurnýjaður með kaupum á tveimur nýjum björgunarbílum. Einnig verður annar af tveimur slöngubátum sveitarinnar endurnýjaður og skipt út mótorum.

BjörgunarsveitinÆgir Var stofnuð árið 1935. Framan af var sjóbjörgun aðalstarfsemi sveitarinnar vegna tíðra sjóslysa við Garðskaga og ströndina innan af honum. Síðan sveitin var stofnuð hefur sveitin bjargað fjölmörgum skipverjum af innlendum og erlendum skipum. Aldrei hafa orðið mannskaðar við þær aðgerðir.

Virkir félagar í dag eru um 20 sem skipast í mismunandi flokka svo sem sjóflokk, landflokk, bílaflokk og fleira. Jafnframt leggur sveitin til menn í áhöfn stærsta björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem staðsett er í Sandgerði, Hannes Þ. Hafsteinn.

Helstu viðfangsefni sveitarinnar í dag eru leit og björgun við strendur Íslands, leit og björgun á landi, þátttaka í skipulagi Almannavarna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024