Björgunarsveitarmenn leita björgunarskipsins
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík mun senda af stað björgunarsveitarmenn til að leita að björgunarskipinu sem fór útbyrðis af flutningaskipinu Skaftafelli í gærkvöldi. Björgunarsveitarmenn munu leita við Selatungu og við Krýsuvíkurberg en talið er að skipið reki í þá átt að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Vegna veðurs var ekki hægt að leita að skipinu í nótt. Óvíst er hvort björgunarskipið er enn á floti, en skip sem þessi eiga að vera illsökkvanleg.
Agnar Júlíusson skipstjóri á Hannesi Þ. Hafstein björgunarskipi Slysavarnafélagsins í Sandgerði segir að björgunarsveitin hafi fengið boð um atvikið í gærkvöldi en að ekki hafi verið tekin sú áhætta að halda út til leitar sökum veðurs. Í samtali við Víkurfréttir sagði Agnar að jafnvel væri talið að skipið væri sokkið.
Björgunarskipið var staðsett á þilfari Skaftafells, fest í sérstakar flutningsgrindur þegar brotsjórinn reið yfir skipið, rétt fyrir klukkan 11 í gærkvöldi. Skaftafellið var þá staðsett um 8 sjómílur suður af Krýsuvíkurbergi á Reykjanesi. Um þetta leiti var 10-12 metra ölduhæð og stormur.
Myndin: Oddur V. Gíslason björgunarskip Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.