Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarsveitarmaður hafnaði í sprungu á göngustíg í Grindavík
Göngustígurinn þar sem björgunarsveitarmaður fór niður úr malbikinu og ofan í sprungu. VF/Hilmar Bragi
Mánudagur 15. janúar 2024 kl. 19:17

Björgunarsveitarmaður hafnaði í sprungu á göngustíg í Grindavík

Nýjar sprungur á yfirborði geta komið í ljós næstu daga

Það getur verið varasamt að vera á ferð um Grindavík þessa dagana. Sprungur í bænum eru að stækka og nýjar verða til. Björgunarsveitarmaður sem fylgdi fjölmiðlafólki um Hópshverfi í Grindavík fór niður úr malbiki á göngustíg í hverfinu og sökk í sprungu upp að mitti. Maðurinn slasaðist ekki en var brugðið. Atvikið segir hann gott dæmi um það hversu varasamt er að vera á ferðinni, jafnvel þó svo fólk sé meðvitað um hætturnar. Sprungurnar leynast víða. Fjölmiðlafólki sem heimsótti Grindavík í dag var aðeins heimilt að ganga eftir malbikuðum stígum og götum en ekki á grasi eða í móanum, vegna hættu á að þar verði jarðfall.

Út frá mælingum hefur gliðnun innan bæjarmarka Grindavíkur verið allt að 1,4 metrar síðasta sólarhringinn. Gliðnunin dreifist yfir margar sprungur, nýjar hafa myndast og eldri opnast meira. Nýjar sprungur geta verið að koma í ljós á yfirborði næstu daga, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eins og áður hefur komið fram þá eru gosstöðvarnar mikið hættusvæði og ekki er hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara. Það var tilfellið þegar sprungan opnaðist við bæjarmörk Grindavíkur í gær. Engin merki sáust á mælitækjum í tengslum við þá gosopnun sérstaklega.

Hér rann hraunið inn í Hópshverfið í Grindavík. Í forgrunni má sjá hvernig malbikið hefur bylgjast upp í hamförum síðustu vikna. VF/Hilmar Bragi