Björgunarsveitarfólk úr Reykjanesbæ til leitar á Snæfellsnesi
Tveir hópar björguarsveitarmanna hafa verið sendir frá Björgunarsveitinni Suðurnes vestur á Snæfellsnes til að taka þátt í leit að karlmanni sem er týndur.
Lögreglan óskaði eftir aðstoð björgunarsveitarmanna um klukkan sex í kvöld í leit að manninum nálægt Eldborg á sunnanverðu Snæfellsnesi. Alls hafa um 300 björgunarmenn verið virkjaðir.
Haraldur Haraldsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, segir að um sé að ræða gönguhóp og einnig menn á fjórhjólum.
Leitin beinist að sunnanverðum Haffjarðarmúla í Hnappadal sem er nærri veginum yfir Heydal. Sporhundar taka einnig þátt í leitinni.
Þá tók Björgunarsveitin Suðurnes þátt í stórri leit á Suðurnesjum í gærkvöldi þar sem leitað var að týndum einstaklingi. Hann fannst heill á húfi.