Björgunarsveitarfólk frá Suðurnesjum í Sveinsgili
Einn flokkur með fimm björgunarsveitarmönnum frá Björgunarsveitinni Suðurnes tekur þátt í leit að frönskum ferðamanni sem féll niður um ísbrú og ofan í á við Sveinsgil seinnipartinn í gær. Annar flokkur leggur af stað frá Reykjanesbæ nú eftir hádegið.
Þá var einnig flokkur með fjórum mönnum frá Ægi í Garði sem var kominn á vettvang kl. 07 í morgun og var í verkefnum fram undir hádegi.
Nú er verið að skipta um mannskap í Sveinsgili, hvíla þá sem eru búnir að koma að aðgerðinni frá því snemma í morgun og nótt og fá úthvíldan hóp inn. Óskað hefur verið eftir fleira fólki frá björgunarsveitum frá Akranesi í vestri til Klausturs í austri og er verið að vinna í því.
Skipulag dagsins er að halda áfram að notast við keðju-og rafmagssagir til að brjóta upp klaka og ís sem verður svo mokað í burtu til að komast niður að ánni og auðvelda leitina.
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun einnig koma að leitinni í dag með því að aðstoða við að ferja fólk og búnað frá Landmannalaugum á slysstað.