Björgunarsveitarfólk fjölmennir til Reykjanesbæjar
Í dag var skrifað undir samkomulag milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar um nánara samstarf Landsbjargar og þyrlusveita Gæslunnar. Björgunarsveitarmenn koma nú saman á landsþingi í Reykjanesbæ.
Um 450 félagar úr Slysavarnafélaginu Landsbjörgu eru skráðir til þátttöku á tveggja daga landsþingi sem sett var í Reykjanesbæ í dag.
Innri málefni félagsins verða veigamikil á þinginu. Þetta er fimmta landsþing björgunarsamtakanna sem þó byggir á gömlum merg en Slysavarnafélag Íslands var stofnað 1928.
Á þinginu í dag var skrifað undir stærsta styrktarsamning sem félagið hefur gert til þessa en það var við fyrirtækið N1. Samningnum er ætlað að lækka eldsneytiskosntnað björgunarsveitanna verulega. Þá var undirritaður samningur milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar. Björgunarsveitarmenn munu m.a. vera í áhöfnum þyrlusveitar í aðgerðum á landi.
Á morgun gefst almenningi kostur á að taka þátt í þrautabrautum og fara í siglingu með skólaskipinu Sæbjörgu. Einnig verður stór björgunarsýning við DUUShús. Þá verður brúðusýning fyrir yngstu börnin og samæfing björgunarsveita og þyrlu Landhelgisgæslunnar utan við smábátahöfnina í Keflavík.
Ljósmynd: Frá setningu landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Reykjanesbæ í dag.
Sjá viðtal við Sigurgeir Guðmundsson, formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar í vefsjónvarpi Víkurfrétta – Smellið hér!