Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Björgunarskipið fundið gjörónýtt við Selatanga
Laugardagur 6. mars 2004 kl. 16:59

Björgunarskipið fundið gjörónýtt við Selatanga

Það er lítið eftir af björgunarskipinu sem fór útbyrðis af flutningaskipinu Skaftafelli undan Grindavík á þriðjudagskvöld. Brak fannst í fjörunni við Selatanga sunnan Grindavíkur í morgun. Af lýsingu sjónarvotta er ekkert heilt og brakið dreift um stórt svæði. Aron-björgunarskipið var 43 tonn að stærð og rúmlega 16 metra langt var staðsett á þilfari Skaftafellsins þar sem það var fest í gámafleti og sérstakar flutningsgrindur þegar brotsjórinn reið yfir, en þá var Skaftafell staðsett um 8 sjómílur suður af Krýsuvíkurbergi. Stormur var þegar óhappið gerðist og 10-12 metra ölduhæð.
Björgunarsveitarmenn af Suðurnesjum fóru til leitar í morgun. Fyrst gengu björgunarmenn úr Garðinum fram á slöngubát merktan RNLI og skömmu síðar fundust vélar björgunarskipsins. Þá sást brak í fjörunni á stóru svæði. Miðað við hversu ofarlega í fjörunni brakið er, þá eru björgunarsveitarmenn vissir um það að björgunarskipið hafi rekið hratt upp í fjöruna eftir að það skolaði frá borði flutningaskipsins í brotsjónum. Flogið var yfir svæðið daginn eftir slysið en þá sást ekki. Ástæðuna telja menn þá að brimið var ennþá mikið og því hafi brotin úr bátnum ekki sést í briminu. Komið var með slöngubátinn sem fannst til Grindavíkur í dag, en öðrum verðmætum var ekki hægt að bjarga.

Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi við Selatanga og af slöngubátnum í Grindavík í dag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024