Björgunarskip í Grindavík og Sandgerði kölluð út
Björgunarskip frá Grindavík og Sandgerði voru kölluð út í dag til leitar að tveimur fiskibátum sem horfið höfðu úr sjálfvirka tilkynningarkerfinu. Ekkert samband náðist við bátana og óskaði Tilkynningaskyldan eftir aðstoð björgunarskipanna Odds V. Gíslasonar í Grindavík og Hannesar Þ. Hafstein í Sandgerði. Þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út. Í þann mund sem björgunarskipin voru að láta úr höfn barst tilkynning um að bátarnir hefðu fundist og að ekkert amaði að þeim. Þeir höfðu siglt 60 sjómílur út af Reykjanesi og voru því komnir út fyrir farsvið sitt þ.e. það hafsvæði sem leyfilegt er miðað við þann fjarskiptabúnað sem er um borð í bátunum. Þetta er í þriðja skipti á innan við mánuði sem kallað er til leitar að þessum sömu bátum á þessu sama svæði, segir í tilkynningu frá Björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík.
Myndin: Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein í Sandgerði.