Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð fylgi Landhelgisgæzlunni til Keflavíkurflugvallar
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæzlunnar (LHG), telur það athyglisverðan kost að flytja starfsemi LHG til Reykjanesbæjar. Í skriflegu svari til Víkurfrétta segir hann flutninginn vera kost sem vert sé að skoða vandlega. Georg bætir um betur og segir að reynsla LHG af sambúðinni í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík sé góð: „Það kann að vera spurning hvort ekki sé rétt að skoða þann möguleika að flytja alla starfsemina suður í Reykjanesbæ en þar er um að ræða Vaktstöð siglinga, Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra, starfsemi 112 og samhæfingarmiðstöð almannavarna“.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var jákvæður fyrir flutningi Landhelgisgæzlunnar til Reykjanesbæjar í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi. Nú sé verið að skoða af alvöru að flytja starfsemina hingað Suður með sjó og samstarfshópur kominn í málið.
Það hefur verið mikið baráttumál Suðurnesjamanna í mörg ár að LHG komi til Suðurnesja og við brotthvarf Varnarliðsins gaf Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, fyrirheit á fjölmennum fundi í Stapa um að Landhelgisgæzlan flyttist til Reykjanesbæjar.
„Það er rétt að minna á að við tókum, á sínum tíma með jákvæðum hætti undir hugmynd fyrverandi forsætisráðherra um flutning LHG í Reykjanesbæ,“ segir Georg Kr. Lárusson í svari sínu til Víkurfrétta.
Um þá aðstöðu sem stendur Landhelgisgæzlunni til boða á Keflavíkurflugvelli segir Georg: „Það er engum vafa undirorpið að aðstaða er þarna eins og best verður á kosið. Við teljum hins vegar afar brýnt að ef af flutningi verður flytjist öll starfsemi LHG, þar með talin Vaktstöð siglinga sem jafnfram er stjórnstöð LHG“.
Landhelgisgæzlunni stendur til boða myndarlegt flugskýli á Keflavíkurflugvelli sem er á forræði NATO og var allt endurnýjað fyrir tæpum áratug síðan fyrir um tvo milljarða króna. Þar rúmast allur flugkostur Landhelgisgæzlunnar, auk þess sem þar er rúmgott verkstæðisrými og skrifstofur, auk funda- og fræðslurýmis, samtals á þremur hæðum.
Í dag býr Landhelgisgæzlan við mjög þröngan húsakost á Reykjavíkurflugvelli þar sem LHG þarf að hýsa fjórar þyrlur, auk Fokker-flugvélar.
Mynd: Umrætt flugskýli á Keflavíkurflugvelli.
Ljósmynd: Ellert Grétarsson