Björgunaraðgerðir tókust vel
Sukhoi Superjet flutt af slysstað
Björgunaraðgerðir við að flytja rússnesku flugvélina Sukhoi Superjet 100 sem magalenti á Keflavíkurflugvelli sl. sunnudagsmorgun gengu vel í gærkvöldi. Starfsmenn Isavia notuðust við nýjan búnað sem komið var fyrir undir vængjum vélarinnar og þannig var henni lyft upp. Kranabílar náðu síðan böndum sínum utan um vélina og náðu þannig að hífa hana upp enn frekar. Verkið gekk hægt en vel en rúmir fjórir klukkutímar liðu þangað til hægt var að setja hjólin undir vélina aftur.
Vélin var síðan tengd við rafmagn þannig að hægt var að sleppa hjólabúnaði og tókst það með ágætum. Vélin var síðan dregin í burtu af dráttarbíl og nú situr hún á stæði 116. Talsverðar skemmdir komu í ljós á búk vélarinnar þegar hún var hífð upp en þó voru hreyflar vélarinnar hvað mest skemmdir eins og sjá má á myndum.
Nokkur fangnaðarlæti brutust út þegar hjólin komu í ljós enda mikið í húfi fyrir eigendur vélarinnar. Allir starfsmenn sem komu að verkinu eiga hrós skilið en umfangsmikil verkefni sem þessi koma sjaldan upp og því voru allir á vettvangi reynslulausir hvað varðar það að flytja laskaða 30 tonna flugvél.
Hér má sjá búnaðinn sem notaður var til þess að lyfta vélinni.
Hreyflar vélarinnar voru ónýtir eftir slysið.
Hjólin komu í ljós að lokum.
VF myndir: Eyþór Sæmundsson