Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 3. júní 2003 kl. 12:15

Björgun Guðrúnar Gísladóttur: Segir ummæli Guðmundar ýkt

Haukur Guðmundsson einn forsvarsmanna Íshúss Njarðvíkur segir að dagurinn í dag sé stefnumarkandi varðandi björgun Guðrúnar Gísladóttur. Aðspurður um ásakanir skipverja á Stakkanesi um vangoldin laun segir Haukur að það sé verulega ýkt að skipið sé olíulaust og að skipverjar séu matarlitlir. „Ég get boðið þér hingað heim til að sjá matargreiðslur og launauppgjör til skipverja. Þeir eiga inni laun hjá okkur, en þetta er verulega ýkt hjá Guðmundi,“ sagði Haukur í samtali við Víkurfréttir. Að sögn Hauks er dagurinn í dag stefnumarkandi fyrir framhaldið á þessum leiðangri. „Það eru kannski 3-4 klukkutímar í það að fjármagn sem við höfum tryggt til verksins líti dagsins ljós. Við erum með yfirlýsingu um að við séum með tryggt fjármagn til verksins, en það er ekki enn komið í hús og það er vandinn. Málið snýst um þetta og Guðmundur skipstjóri veit þetta,“ segir Haukur og segist hafa vitneskju um að kafaraskipið sé á leið frá staðnum í dag.

Haukur segir að áfram verði unnið að björgun skipsins á meðan þeir fái möguleika til þess. „það hefur gengið mikið á og kostnaður hefur aukist verulega. Við erum búnir að eyða helmingi meira fjármagni í þennan leiðangur en ætlunin var eins og allir vita og þess vegna er þetta snúið.Ég hef ekki gefist upp þó þessir menn komi heim. Það er náttúrulega til fullt af mönnum, en að sjálfsögðu verður gert upp við skipverja á Stakkanesi.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024